Rannsóknir

Fyrsta stig klínískra lyfjaprófana hefst

19. maí 2011 tilkynntu FSMA (Families of Spinal Muscular Atrophy) að Matar- og lyfjaeftirlitið í Bandaríkjunum (FDA) hefði samþykkt fyrsta stig klínískra prófana á lyfjaefninu RG3039, áður kallað Quinazoline495, í heilbrigðum sjálfboðaliðum. Það er fyrirtækið RepliGen sem sér um prófarnirnar.

Þetta mun vera fyrsta lyfið sem er sérstaklega hannað til að meðhöndla SMA og fyrsta meðferðin sem leitast við að auka magn SMN próteinsins. Ef lyfið ber árangur mun það geta stöðvað eða hægt framgang sjúkdómsins.

MDA (Muscular Dystrophy Association) hefur hjálpað við að fjármagna prófanirnar en þau samtök fjármagna auk þess meira en 330 rannsóknarteymi á heimsvísu.

Stofnfrumurannsóknir og SMA

Undanfarin ár hef ég eins og margir aðrir sem eiga börn með SMA reynt að fylgjast vel með framvinndu stofnfrumurannsókna. Framvinnda rannsókna hefur verið hröð þrátt fyrir að um margra ára skeið hafi ríkisstjórn Bandaríkjanna undir forystu George Bush haft gríðarlega hamlandi áhrif á framþróun þeirra.
Þar sem tök fólks á að fylgjast með framþróun stofnfrumurannsókna eru misjöfn og ýmsir hafa leitað til mín með spurningar, ákvað ég að setja niður nokkrar línur til fróðleiks, án þess þó að fara útí neina ítarlega umfjöllun.

Stofnfrumur eru frumur sem hafa þann eiginleika að breytast í hvaða frumur sem er, taugafrumur, húðfrumur, osv.frv. Þessar frumur eru hvað virkastar á fósturskeiði og eitthvað fram yfir fæðingu. Eftir því sem á líður minnkar mikilvægi þessara stofnfruma fyrir líkamann, en þær eru þó til staðar í líkama okkar eftir að fullorðinsárum er náð.
Vísindamenn hafa unnið með stofnfrumur úr mannafóstrum, en einnig náð að vinna með stofnfrumur úr fullorðnum einstaklingum.
Miklar vonir eru bundnar við lækningu við SMA með notkun stofnfruma. Ekki bara það að það náist að stöðva sjúkdóminn heldur einnig að þeir sem haldnir eru SMA nái einhverjum bata.
Með innsetningu stofnfruma er vonast til að nýjir taugaendar (anterior horn cells) myndist við mænu og taugar vaxi frá þeim og út í vöðvana. Það er eitt að ná að mynda nýja taugaenda með stofnfrumu ígræðslu, en svo er annað hvort taugar nái á ný út í vöðvana. Talið er að eftir því sem einstaklingurinn er yngri séu líkurnar meiri á að taugarnar nái að vaxa út í vöðvana. Ástæðan er bæði sú að ,,vegalengdir“ sem taugarnar þurfa að vaxa eru styttri í minni einstaklingum, sem og að í yngri einstaklingum eru fyrir hendi ákveðnir vaxtahvetjandi þættir sem hjálpa til við vöxt tauganna.

Víða um heim eru unnið starf sem miðar að lækningu sjúkdóma með stofnfrumum. Ég veit hinsvegar eingöngu um eitt verkefni þar sem sérstaklega er miðað að lækningu á SMA með stofnfrumum, en það er verkefni unnið af California Stem Cells (CSC). CSC er einkafyrirtæki sem miðar á að setja á markað lækningaraðferðir, sem byggja á stofnfumurannsóknum. Af ýmsum ástæðum hafa þeir valið SMA sem sitt fyrsta verkefni. En ein ástæðan mun sú að þeir telja að það sé tiltölulega ,,auðveldara“ að ná sýnilegum árangri með SMA en aðra sjúkdóma. Eiga þeir í sínum fórum sérhæfðar stofnfrumur, sem eingöngu eiga að mynda nýja taugaenda og ekkert annað. Verkefnið er unnið undir eftirliti Matvæla og lyfjaeftirlitsins í Bandaríkjunum (FDA). Allar frumtilraunir CSC í dýrum hafa gengið að óskum og verið yfirfarnar af FDA. Í dag mun verkefnið komið á það stig að mjög stutt (einhverjir mánuðir) er í að leyfi fáist frá FDA til að hefja frumtilraunir í mönnum. Í fyrstu mun CSC einbeita sér að SMA týpu I, þar sem sýnilegur mælanlegur árangur ætti þar að vera meiri en sé um SMA II eða III að ræða. Einnig að eins og fram kom hér að framan eru meiri líkur til að árangur náist með SMA týpu I, þar sem um mjög unga einstaklinga er að ræða. Nú nýlega fékk CSC einnig leyfi frá FDA, svokallað Orphan Drug Designation, sem á grundvelli mikilvægis þess að veita lækningu við SMA veitir ýmsar undanþágur og flýtimeðferðir í rannsóknunum.

Aðrar stofnfrumurannsóknir, sem ekki endilega beinast beint að SMA eru einnig áhugaverðar og þá sérstaklega þær sem beinast að sjúkdómnum ALS, sem gjarnan er vísað til sem MND á Íslandi. MND stendur fyrir Motor Neuron Disease en undir þann flokk falla tveir sjúkdómar, SMA og ALS. Í báðum tilvikum er um dauða sömu taugaendanna að ræða, þó orsakirnar séu af ólíkum toga. Nú nýlega las ég fréttir þess efnis að væntanlegar stofnfrumutilraunir í ALS sjúklingum séu komnar skrefi lengra en stofnfrumurannsóknir hjá CSC. En Emory ALS Center í Bandaríkjunum hefur fengið leyfi til að byrja tilraunir á einstaklingum sem haldnir eru ALS.

Undanfarið hafa fréttir af kraftaverkalækningum með stofnfrumum við hinum og þessum sjúkdómum og sköðum verið áberandi, bæði í fjölmiðlum og á netinu. Gjarnan er um að ræða sjúkrahús í Kína eða á Indlandi. Við nánari skoðun á þessum sjúkrahúsum, t.d. með leit að gagnrýninni umfjöllun um þau á netinu, virðist sem í raun sé einfaldlega verið að fikta í sjúklingum með því að sprauta í þá stofnfrumum upp á von og óvon. Þessi sjúkrahús, sem gjarnan kynna sig sem einhverskonar rannsóknaraðila, hafa verið óviljug til að deila ,,rannsóknarniðuðurstöðum“ sínum, enda vitna margir um það sem í þessar meðferðir hafa farið að þeir hafi ekki orðið varir við neitt eftirlit eða eftirfylgni við þá sjúklinga sem meðhöndlaðir hafi verið. Hinsvegar má lesa ótrúlegar kraftaverkasögur á heimasíðum þessara sjúkrahúsa, t.d. Stem Cells China. Sé einhver að velta því fyrir sér að leita óviðurkenndra stofnfrumulækninga á svona sjúkrahúsum t.d. í Kína eða Indlandi má benda viðkomandi á að horfa ekki bara á ævintýralegar sögur á heimsasíðum þessara sjúkrahúsa heldur að leita á netinu eftir gagnrýninni umfjöllun um viðkomandi sjúkrahús. Til dæmis á google með því að skrifa nafn stofnunarinnar og svo t.d. orðin fraud, scandal, eða scam. Það koma þá yfirleitt upp ýmsar áhugaverðar síður bæði frá fræðimönnum og vonsviknu fólki. Ég efast hinsvegar ekki um að í einhverjum tilvikum sé virkilegt gagn í þessum óviðurkenndu stofnfrumulækningum og fólk hljóti einhvern bata, þar sem það merkilega við stofnfrumur er að þær virðast með einhverjum hætti leita uppi skaða og bæta hann. Hinsvegar mun alltaf, sérstaklega þar sem ekki er um að ræða sérhæfðar stofnfrumur, vera fyrir hendi hætta á æxlismyndun eða að stofnfrumurnar geri eitthvað allt annað en ætlast var til af þeim. Þar sem svo virðist að vandaðar stofnfrumurannsóknir undir eftirliti séu nálægt því að skila árangri mæli ég amk með því að þeir sem velta fyrir sér óviðurkenndum stofnfrumulækningum ættu að hugsa sig vel um hvort áhættan sé þess virði.

Þar sem ég er eingöngu áhugasamur faðir SMA veiks barns um stofnfrumurannsóknir og ekki sérfræðingur í þessum málum vil ég benda þeim á sem þetta lesa og búa yfir frekari þekkingu eða vitneskju, sem gjarnan mætti birta hér eða telja að ég fari að einhverju leyti fara með rangt mál, að hafa samband svo hægt sé að koma því á framfæri eða leiðrétta.

Egill Helgason, desember 2009
[email protected]

Til frekari upplýsinga vil ég gjarnan vísa á eftirfarandi tengla.
http://www.fsma.org/
http://www.californiastemcell.com/
http://www.neurology.emory.edu/ALS/index.html

Áfangi í lyfjaþróuninni

Samtök fjölskyldna með SMA (Families of Spinal Muscular Atrophy) FSMA tilkynntu 22. júní 2007 val á lyfjaefni fyrir klínískar lyfjaprófanir. Það er stórt skref í þróun á lyfi gegn SMA sjúkdómnum.

Árið 2003 gerðu FSMA stóran samning við Íslenska erfðagreiningu eða deCODE genetics um rannsókarvinnu að lyfjaþróun fyrir SMA. Sá samningur hefur núna verið framlengdur til að vinna að umsókn til Matar- og lyfjaeftirlitsins í Bandaríkjunum (FDA) um að gefa út tilraunalyf (IND). Ef sú umsókn verður samþykkt þá er það fyrsta lyfið sem er sérstaklega hannað til að meðhöndla SMA. Til þess að FDA samþykki þetta tilraunalyf þarf að sýna fram á rannsóknir á ýmsum sviðum. Reiknað er með að þetta taki um 12 mánuði. Að því loknu og ef allt gengur að óskum þá getur fyrsta stig klínískrar lyfjaprófana hafist en það eru allavega 3 stig. Þær prófanir geta tekið mörg ár og ekki er víst að það komist í gegnum þær allar en auðvitað vonum við það besta.

FSMA hefur verið með þetta verkefni í gangi síðustu 7 ár og hefur varið yfir 10 milljónum dollara í það. Það hefur verið sýnt fram á að þetta lyfjaefni eykur framleiðslu SMN2 gensins á SMN próteininu og hefur það haft jákvæða virkni hjá músum með alvarlegt stig af SMA.