Þorsteinn Sturla

sturla

 

Stulli er tæplega 15 ára gamall drengur með SMA II. Hann hefur aldrei gengið en hefur notað rafmagnshjólastól frá því hann var 2ja og hálfs árs. Hann er með mjög skerta hreyfigetu, getur t.d. ekki klórað sér í höfðinu en hann er virkur tölvunotandi og horfir mikið á sjónvarpsþætti og leikur sér í Playstation. Hann hefur alla tíð gengið í almennan skóla og hefur gengið vel. Hann er nú að byrja síðasta árið sitt í grunnskóla og stefnir á menntaskóla að honum loknum. Stulli hefur eins og aðrir unglingar gaman af að fara í bíó og missir sjaldan af mynd. Hann hefur æft boccia sl. tvö ár og hefur hampað íslandsmeistaratitli í rennuflokki bæði í einstaklings og liðakeppni. Hann fór á Norðurlandamót í Boccia í Svíþjóð nú í vor. Þar að auki er hann í spilahóp sem spilar Dungeons and Dragons, hann tekur þátt í Buslinu sem er hópur fatlaðra ungmenna sem hittist reglulega og gerir eitthvað skemmtilegt. Svo hefur hann verið að vinna sl. tvö sumur í versluninni Spilavinir og verður þar einn dag í mánuði í vetur. Stulli er lífsglaður og virkur strákur sem nýtur lífsins. Hann er félagslega sterkur á bæði fatlaða og ófatlaða vini og gerir það sem aðrir unglingar gera – eini munurinn er sá að Stulli er yfirleitt með aðstoðarmann með sér.